föstudagur, janúar 28, 2005

Ljóskan ég

Á mínum yngi árum fékk ég þann vafasama titil "Ljóska bekkjarins" (og með yngri árum meina ég er ég lagði stund á nám við Menntaskólann í Reykjavík). Ég viðurkenni alveg fúslega að ég átti þann titil e.t.v. skilið á sínum tíma því átti það til að segja ýmislegt undarlegt í viðurvist almennings. Eða "hugsa upphátt" eins og ég kýs að kalla það. Hélt ég væri vaxin uppúr þessu (fyrir utan einstaka feilspor hvar Esjan og fleira koma við sögu) en sú er víst ekki raunin. Fyrir viku síðan er ég var að bera Idol augum með Sollu, missti ég út út mér eitthvað það ljóskulegasta sem ég hef sagt á ferli mínum (sem ljóska þá?), að mínu mati. Þannig er mál með vexti að Jói Idolkynnir segir: "Nú er komið auglýsingahlé en eftir það fáum við að sjá þrjá síðustu keppendurna, svo ekki blikka auga!", og ég segi þá um hæl (með augun galopin vel að merkja) "Ohhh bara ef ég gæti það", (Solla lítur á mig undrunaraugum hvar ég reyni að halda augunum galopnum), en svo koma tár í augun mín af áreynslu og ég segi (með vonbrigðisblæ á röddu): "Nei! Það er ekki hægt". Við þetta springur Solla úr hlátri og ég ranka við mér og tek undir hláturinn jafnhissa og hún á þessum meiriháttar undarlegu viðbrögðum við orðum hans Jóa hjá mér. Ætli þetta hafi ekki bara verið "momentary weakness" svo ég sletti aðeins. Vona það.

mánudagur, janúar 24, 2005

Mánudagur til mæðu

Dagurinn í dag er víst leiðinlegasti dagur ársins samkvæmt hinu virta tímariti The Guardian. Þetta er víst vísindalega staðfest og ekki þýðir að þræta við vísindin. Hingað til er hann nú ekki búin að vera leiðinlegri en venjulega en það getur allt gerst. Best að bíða bara spennt og sjá hvað setur.

Enn ein helgin á enda runnin og fer nú senn að líða að brottför minni aftur út. Kominn tími til að kíkja í skólabækur og gera skiladæmi. Liggur við að maður sakni þess...eða ekki. Þessi helgi var með eindæmum skemmtileg enda var henni varið með hressa fólkinu í Röskvu (ásamt fleirum). Listakynning og dans á kaffibarnum á föstudagskvöldinu, hvar góð tónlist var í hávegum höfð aldrei þessu vant, og svæsin sumarbústaðarferð á laugardeginum sem verður ekki farið nánar útí hér en eitt get ég þó sagt með vissu að skemmtanagildi hennar var mikið. Flottur þessi nýi listi en þó ekki alveg eins fallegur og listinn í fyrra (enda var undirrituð hluti af honum og er hún með eindæmum fögur stúlka (hlutlaust mat)). Segi svona. Læt þetta nægja að sinni.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Dreymdi í nótt...

...að Logi Bergmann Eiðsson og kærastan hans, hvaðsemhúnheitir, buðu mér og Sollu í mat. Áttum við notalega kvöldstund með þeim en ég áttaði mig þó ekki á því hví þau voru að bjóða okkur í mat. Hélt þetta væru mistök en sá svo í minnisbók Loga, "Bjóða Sollu og Söru í mat" , svo vafar mínir um ágæti þessa boðs hurfu líkt og dögg fyrir sólu. Logi var í teinóttum jakkafötum enda er toppurinn að vera í teinóttu hef ég heyrt. Áttu þau skötuhjú þrjú börn og var eitt þeirra nýfætt. Tók ég strax ástfóstri við þetta barn og fékk að halda á því meðan hinir fengu sér kaffi og með því inni í stofu. Mér til mikillar furðu tók barnið svo að skríða um mig alla þegar hinir voru horfnir og var ég fljót að týna því. Leitaði og leitaði svo að barninu í öllum skúmaskotum og þegar ég sá glitta í teinóttu jakkafötin hans Loga þokast nær og nær í átt að mér hélt ég að mér allri væri lokið en í þann mund sem Logi birtist mér rétti einhver ókunnug hönd mér barnið. Hjúkk! Já, allt er gott sem endar vel.

mánudagur, janúar 17, 2005

Hef ekkert að segja...

...nema *hóst*. Þvílíkt andleysi sem hrjáir mig þessa dagana. Fæ martraðir á nóttunni þvi hef ekkert að blogga um. Hvernig fara allir hinir að þessu? Skrifa og skrifa eins og þeim sé borgað fyrir það (sumir fá reyndar borgað fyrir það, t.d. blaðamenn svo skil hvernig þeir geta kreyst út samansafn málsgreina villt og galið). En svona er þetta bara. Ekki á allt kosið. Ég verð bara að bíða og vona að ég fái andann yfir mig einhvern daginn.

laugardagur, janúar 08, 2005

Föstudagskvöld og fögur orð

Átti góða stund á Laugarnesveginum í gær (hvar Jón Torfi er heimilismaður (sem finnst ég ekki tala nógu mikið um hann á blogginu mínu(gerði hann CTRL F og sá hann bara nafn sitt einu sinni bera við góma hér svo ég hef ákveðið að gera honum aðeins til geðs og nefna hann einu sinni í viðbót í það minnsta(ein byrjuð á svigunum aftur)))) og voru fögur orð í hávegum höfð þar. Ég átti ekki við að skrá hjá mér orðin sem flugu um loftið og komst ég því að þeirri niðurstöðu að vinir mínir sem deildu þessari kvöldstund með mér eru einkar vel mæltir sem skiptir veigamiklu máli í þessu lífi. Ragnar Brjánn var kominn eilítið í glas og breyttist hægt og rólega í Guðna Ágústsson í talanda (þar sem tvö tré koma saman, þar er skógur) sér til mikillar skelfingar en okkur hinum til mikillar ánægju og upplyftingar.
Jón Torfi og Villi skiptust á fallegum orðum villt og galið en ég var ekki nógu dugleg að skrá hjá mér (því gleymdi bókinni minni góðu heima (en það þýðir ekki að gráta hið liðna (ég naut orðanna þegar þau flugu á loft og verður það að nægja að sinni))). En til að nefna einhver orð og setningar (?) sem flugu um loftið: “okkar í millum”, “meinvarpast”, “helgott”, “krankleiki”, “hún er svo focking sexy” (sagt um Ingibjörgu Sólrúnu í kaldhæðni(eða kannski ekki(maður veit ekki))), “mæra”, “dólgur”, og svo miklu, miklu meira.

Læt þetta nægja í bili. Skrýtin færsla. Gaman að skrifa um falleg orð sem ég man ekki einu sinni.

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Annáll 2004

Nú árið er liðið og allt það og kominn tími til að gera stuttan og hnitmiðaðan annál (sjáum til með það) svona til að vera með í umræðunni.

Bestu tónleikar: Damien Rice. Hann er sætur. Hann kann að syngja angurvært og hann gaf Sörunni eiginhandaráritun.

Verstu tónleikar: Pixies tónleikarnir í Kaplakrika. Geispaði villt og galið og langaði mest heim að sofa.

Besta móment: Þegar ég bað Guðmund Steingrímsson um eiginhandaráritun. Ekkert skammarlegt, nei, nei.

Besta lagið: Hey Ya! eða var það 2003? Mér er sama. Hey Ya! verður alltaf lag ársins í mínu hjarta, sama hvaða ár er.

Besti geisladiskur: Kanye West: College Dropout.

Sorglegasta stund: Að Sex And The City skyldi líða undir lok

Besta kvikmynd: KillBill 2/Shrek 2/ Eternal Sunshine of the Spotless Mind/ Lost in Translation. Get ekki ákveðið.

Ánægjulegasti viðburður: Sumarið 2004 og blíðskaparveðrið sem því fylgdi.

Besta nýja sjónvarpsefni: The OC. Drama ríka og fallega fólksins. Dramatískt en skemmtilegt.

Leiðinlegasta atvik: Þegar ég missti af fyrri helmingnum af Starsailor tónleikunum því las vitlaust á miðann og þegar mér var hent út af netinu á kolleginu mínu.

Menningarviðburður: Sýning Íslenska Dansflokksins á Lúna og hinu sem ég man ekki hvað heitir en man að það innihélt karlmenn í tjullpilsum. Með því fyndnara sem ég hef séð.

Besta fjárfesting: Fartölvan mín

Heiti reiturinn (e. Hot Spot): Kaffibarinn, hvar ég dvaldi ósjaldan á síðasta ári.

Fallegasti fýrinn: Jude Law. Fáir fegurri en hann.

Leikrit: Rómeó og Júlía. Gaman að fara á leiksýningu með loftfimleikaívafi.

Söngleikur: Hárið (eða Hair) enda eini söngleikurinn sem ég fór á.

Flottasti dansinn: Thriller dansinn dansaður af Jennifer Garner (Alias gellu), Mark Ruffalo og fleirum í myndinni "13 going on 30" (já ég fór á þessa mynd í bíó).

Skammarlegasta atvik: Þegar við Gígja þurftum að burðast með risakassa í strætó sem innihélt vitlausan stól sem IKEA í Danmörku seldi mér og við auðvitað villtumst og svo kom rigning og allt var ómögulegt en IKEA bætti góða skapið svo um munaði með því að eiga ekki rétta stólinn er við loks komumst þangað en borguðu þó fyrir okkur strætófargjaldið okkur til mikillar ánægju (lesist með kaldhæðni).

Þá er þetta komið í bili. Megið þið öll eiga ánægjulegt ár.