laugardagur, október 30, 2004

Þegar ég verð stór...

Hve oft hefur þessi setning verið notuð í veröldinni? Og hve oft stenst það sem kemur á eftir í setningunni í raunveruleikanum þegar maður verður svo stór? Ekki oft held ég (skrifað með biturleika og armæðu í rödd)

Eitt veit ég að mín setning endaði eitthvað á þá leið: ...ætla ég að vera söng- og leikkona. Ég er nú ekki að sjá það gerast. Held ég stækki ekki meira í bráð og hvað er ég, 22 ára verkfræðinemi sem hefur ekki áhuga á námi sínu og er að þessu til að “ljúka því af” og “ná sér í gráðu”. Sorglegt kannski en ekki græt ég mig í svefn á hverri nóttu (bara aðra hverja nótt).

Lífið er ekkert nema samansafn af ákvarðanatökum og þú endar þar sem þínar ákvarðanir bera þig. Vildi bara að ég tæki ekki í sífellu þessar röngu ákvarðanir. Langar ekkert að vera vélaverkfræðingur (enda mæti ég aldrei í skólann og þegar ég mæti sofna ég næstum úr leiðindum). En hvað langar mig að verða? Söng/Leikkona. Allavega ekki leikkona. Helst af öllu vil ég vera rithöfundur og halda áfram að læra söng mér til gamans og afþreyingar. Og hvað stoppar mig. Nú þessi helvítis verkfræði sem ég virðist föst í. Svo hef ég ekki endilega það sem þarf til að vera góður rithöfundur, Hvað ætti ég að skrifa? Harry Potter snýr aftur! Held nú ekki. Málið er að maður þarf bara að hætta að velta sér upp úr því hvað maður vill gera úr lífi sínu og gera bara eitthvað úr því. Eins og þeir gáfuðu segja (og biðst ég fyrirfram afsökunar á enskuslettunum): “Life Is What Happens To You When You Are Busy Making Plans”. Svo ég þarf bara að hætta þessu væli, hætta í verkfræðinni (ekki að fara að gerast) og byrja í íslensku, skrifa eina snilldar bók og syngja ballöður inná plötu með Jóni Ólafssyni, Þá er líf mitt komið í þær skorður sem ég vil hafa það í. Segi svona. Þetta mun aldrei gerast en það er alltaf gaman að taka smá bull hér á alnetinu.

laugardagur, október 23, 2004

Wimbledon

Alltaf svo gaman að fara í bíó. Veit ekki af hverju mér finnst það svona rosa gaman. Hef e.t.v. farið aðeins of oft í bíó um ævina en hvar eru mörkin. Vildi bara að ég væri kvikmyndagagnrýnir. Þá fengi ég að fara ókeypis í bíó (alltaf gott að spara) og sjá allar myndirnar. Veit samt ekki hvað ég ætti að skrifa og þarf maður að taka með sér glósubók og vasaljós til að skrá hjá sér eða á maður að vera óþolandi manneskjan með diktafóninn sem er alltaf að tala við sjálfa sig. Það er aldeilis í mörg horn að líta.


Það er bara eitthvað við kvikmyndasalinn. Þegar ljósin slokkna og kúlan springur og breytist í THX þá sekkur maður ósjálfrátt ofan í sætið og byrjar að lifa sig inn í myndina. Þannig fær maður að upplifa svo mikið. Ofurrómantíkina og lífið sem maður mun ábyggilega aldrei lifa sjálfur beint í æð. Áðan fékk ég til dæmis að upplifa hvernig er að spila tennis villt og galið á myndinni Wimbledon. Skildi reyndar ekki bofs í þessari stigagjöf en það kemur kannski síðar meir. Ég æfði nefnilega badminton á mínum yngri árum (man reyndar ekki hvernig stigagjöfin er þar heldur, týpiskt að hún sé sú sama og í tennis svo er hætt að tala).


En myndin Wimbledon sem skartar þeim breska og næstbest klædda manni í heimi (samkvæmt Esquire (ég er komin á kaf í karlablöðin (hvaða strákar lesa þetta (með fullri virðingu fyrir strákum sem lesa Esquire og önnur slík karlablöð))), Paul Bettany og hinni amerísku Kirsten Dunst (sem var að hætta með hinum fagra og hæfileikaríka Jake Gyllenhaal (Donnie Darko) samkvæmt Vouge blaðinu mínu) í aðalhlutverkum byrjaði alveg hreint ágætlega. Uppáhaldslagið mitt Ghostwriter með RJD2 var rauður þráður í gegnum myndina og byrjaði myndin einmitt á því lagi sem gerði það að verkum að ég þráði ekkert heitara en að taka smá dans í bíósalnum og ferðast í huganum heim á Prikið í smástund. En ég gat hamið mig. Hún byrjaði sem sagt vel en varð svo bara að lala mynd út í gegn. Annar hápunktur var svo þegar Paul Bettany sagði við sjálfan sig “Fuck A Duck” og er það eitt af því litla sem myndin skilur eftir sig í hjarta mínu. Ein hnyttin setning og með eindæmum fagurt lag. Ég skemmti mér þó alveg yfir henni en það vantaði bara e-ð upp á til að gera myndina frábæra í mínum augum. En misjafn er smekkur manna og það sem einum finnst lala finnst e.t.v. öðrum gullnáma. Skoðun mín er bara dropi í skoðanahafi alheimsins. En nú er ég hætt. Farin að bulla úr hófi fram.

þriðjudagur, október 19, 2004

Stinningskaldi

Of kalt til að blogga.

Held ég fari til Ástralíu í mastersnám. Kannski dáldið dýrt. Þessi Danmörk er allavega ekkert skárri en Ísland varðandi veðurfar.

Er farin undir sæng til að varna því að ég frjósi mig fasta við tölvuna.

Megi Guð traðka á heilum andstæðinga ykkar.

(Veit ekki af hverju ég sagði þetta en varð að enda þessa stuttu færslu á einhvern máta)

Rúsína

föstudagur, október 15, 2004

Söngur Feitu Konunnar

Uppáhaldssetning mín þessa dagana er:
"It ain´t over till the fat lady sings"
Bart lét þessi orð falla í Simpson þætti sem ég horfði á um daginn (alltaf verið að sýna Simpsons hér (sem er ágætt því þetta er hin besta afþreying (ekki joð á undan i í þessu orði Jón Torfi))). Og svo hafa margir aðrir sagt þetta í gegnum tíðina. Eini bagginn (eða bobbinn eða bara gallinn( ég og málshættir ekki alveg að gera sig)) á þessu er að ég hef ekki mörg tækifæri til að segja þessa setningu svo get bara sagt hana við sjálfa mig í einrúmi og brost í kampinn.
Vildi bara deila þessu með ykkur. Veit ekki af hverju. Vegir mannshugans eru órannsakanlegir (eða eru það vegir Guðs).

miðvikudagur, október 06, 2004

Ljónabörn og Bleikir Fuglar

Lillebror er í heimsókn og þegar litlir bræður koma í heimsókn til manns þá verður maður að sinna þeim eftir fremsta megni. Svo ég reyndi á þessum nokkru dögum að sýna stráknum Danaveldi. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að undirrituð er ekkert sérstaklega fróð um Danaveldi (þó hún væri alveg til í að vera það) svo það hefur verið mikið um ferðir þar sem við tökum vitlausan vagn eða lest i ranga átt. Á fyrstu tveimur dögum hans hér enduðum við tvisvar uppí sveit þegar ætlunin var að fara á einhvern stað í Köben þ.a. lillebror hefur ekki mikla trú á mér þessa dagana og skilur ekki hvernig ég hef komist af hingað til. En svona er þetta. Maður á víst að læra af mistökunum. Því oftar sem ég villist því betur læri ég á samgöngurnar hér (eða það tel ég mér a.m.k. trú um (*andvarp*)). Einn daginn gekk allt eins og í sögu því ég var búin að fara á Google (uppáhaldssíðuna mína) og fletta nákvæmlega upp leiðinni í dýragarðinn og viti menn. Mér tókst að koma okkur beinustu leið þangað án nokkura vandkvæða (bróður mínum til mikillar undrunar) og gátum við því eytt deginum í faðmi fallegra dýra (ljónabörnin og bleiku flamingofuglarnir voru þar fremst í flokki) í hjarta borgarinnar en ekki verið föst einhvers staðar uppi í sveit eins og dagana á undan. Já, batnandi manni er best að lifa. Með hjálp Google á því allt eftir að ganga eins og í sögu héreftir. Við skulum allavega vona það.

sunnudagur, október 03, 2004

Pú og Pa eru einkar skemmtilegt fyrirbæri (e. phenomenon). Gott framtak hjá Fréttablaðinu að birta daglega myndasögur af englunum kaldhæðnu í himnaríki (og ennþá betra framtak hjá Fréttablaðinu að birta sjálft blaðið í heilu lagi á netinu svo ég geti "blaðað" í því daglega hér í Danmörku mér til fróðleiks og gleði (ég verð að sjálfsögðu að fylgjast með vikulegu pistlunum hans Guðmundar Steingrímssonar eins og venjan var heima á Íslandi (sumu getur maður bara ekki horfið frá (og pistlarnir hans eru eitt af því)))).

Annað sem mér finnst gaman að gera á vafri mínu um netheima er að skoða bloggið hans Zach Braff (sem ég rakst á þegar ég var að vafra á síðunni hans Þóris Kjána) sem þið þekkið e.t.v. af leik hans sem J.D. í Scrubs ( Zach Braff leikur í Scrubs en ekki Þórir Kjáni svona til að koma í veg fyrir misskilning) og ennfremur er hann leikstjóri/handritshöfundur/aðalleikari myndarinnar Garden State sem ég býð með ofvæni eftir að sjá (sú bið gæti verið löng þar sem ég dvel í DK sem er ekki mjög framarlega á sviði bíómyndanna (andvarp)). Já en bloggið hans Zach Braff er með eindæmum fyndið og vel skrifað og ef þið hafið einhvern snefil af þeim áhuga sem ég hef á hnyttnum skrifum þá endilega kíkið á það.