Ljónabörn og Bleikir Fuglar
Lillebror er í heimsókn og þegar litlir bræður koma í heimsókn til manns þá verður maður að sinna þeim eftir fremsta megni. Svo ég reyndi á þessum nokkru dögum að sýna stráknum Danaveldi. Sá böggull fylgdi þó skammrifi að undirrituð er ekkert sérstaklega fróð um Danaveldi (þó hún væri alveg til í að vera það) svo það hefur verið mikið um ferðir þar sem við tökum vitlausan vagn eða lest i ranga átt. Á fyrstu tveimur dögum hans hér enduðum við tvisvar uppí sveit þegar ætlunin var að fara á einhvern stað í Köben þ.a. lillebror hefur ekki mikla trú á mér þessa dagana og skilur ekki hvernig ég hef komist af hingað til. En svona er þetta. Maður á víst að læra af mistökunum. Því oftar sem ég villist því betur læri ég á samgöngurnar hér (eða það tel ég mér a.m.k. trú um (*andvarp*)). Einn daginn gekk allt eins og í sögu því ég var búin að fara á Google (uppáhaldssíðuna mína) og fletta nákvæmlega upp leiðinni í dýragarðinn og viti menn. Mér tókst að koma okkur beinustu leið þangað án nokkura vandkvæða (bróður mínum til mikillar undrunar) og gátum við því eytt deginum í faðmi fallegra dýra (ljónabörnin og bleiku flamingofuglarnir voru þar fremst í flokki) í hjarta borgarinnar en ekki verið föst einhvers staðar uppi í sveit eins og dagana á undan. Já, batnandi manni er best að lifa. Með hjálp Google á því allt eftir að ganga eins og í sögu héreftir. Við skulum allavega vona það.
<< Home