Wimbledon
Alltaf svo gaman að fara í bíó. Veit ekki af hverju mér finnst það svona rosa gaman. Hef e.t.v. farið aðeins of oft í bíó um ævina en hvar eru mörkin. Vildi bara að ég væri kvikmyndagagnrýnir. Þá fengi ég að fara ókeypis í bíó (alltaf gott að spara) og sjá allar myndirnar. Veit samt ekki hvað ég ætti að skrifa og þarf maður að taka með sér glósubók og vasaljós til að skrá hjá sér eða á maður að vera óþolandi manneskjan með diktafóninn sem er alltaf að tala við sjálfa sig. Það er aldeilis í mörg horn að líta.
Það er bara eitthvað við kvikmyndasalinn. Þegar ljósin slokkna og kúlan springur og breytist í THX þá sekkur maður ósjálfrátt ofan í sætið og byrjar að lifa sig inn í myndina. Þannig fær maður að upplifa svo mikið. Ofurrómantíkina og lífið sem maður mun ábyggilega aldrei lifa sjálfur beint í æð. Áðan fékk ég til dæmis að upplifa hvernig er að spila tennis villt og galið á myndinni Wimbledon. Skildi reyndar ekki bofs í þessari stigagjöf en það kemur kannski síðar meir. Ég æfði nefnilega badminton á mínum yngri árum (man reyndar ekki hvernig stigagjöfin er þar heldur, týpiskt að hún sé sú sama og í tennis svo er hætt að tala).
En myndin Wimbledon sem skartar þeim breska og næstbest klædda manni í heimi (samkvæmt Esquire (ég er komin á kaf í karlablöðin (hvaða strákar lesa þetta (með fullri virðingu fyrir strákum sem lesa Esquire og önnur slík karlablöð))), Paul Bettany og hinni amerísku Kirsten Dunst (sem var að hætta með hinum fagra og hæfileikaríka Jake Gyllenhaal (Donnie Darko) samkvæmt Vouge blaðinu mínu) í aðalhlutverkum byrjaði alveg hreint ágætlega. Uppáhaldslagið mitt Ghostwriter með RJD2 var rauður þráður í gegnum myndina og byrjaði myndin einmitt á því lagi sem gerði það að verkum að ég þráði ekkert heitara en að taka smá dans í bíósalnum og ferðast í huganum heim á Prikið í smástund. En ég gat hamið mig. Hún byrjaði sem sagt vel en varð svo bara að lala mynd út í gegn. Annar hápunktur var svo þegar Paul Bettany sagði við sjálfan sig “Fuck A Duck” og er það eitt af því litla sem myndin skilur eftir sig í hjarta mínu. Ein hnyttin setning og með eindæmum fagurt lag. Ég skemmti mér þó alveg yfir henni en það vantaði bara e-ð upp á til að gera myndina frábæra í mínum augum. En misjafn er smekkur manna og það sem einum finnst lala finnst e.t.v. öðrum gullnáma. Skoðun mín er bara dropi í skoðanahafi alheimsins. En nú er ég hætt. Farin að bulla úr hófi fram.
<< Home