miðvikudagur, janúar 19, 2005

Dreymdi í nótt...

...að Logi Bergmann Eiðsson og kærastan hans, hvaðsemhúnheitir, buðu mér og Sollu í mat. Áttum við notalega kvöldstund með þeim en ég áttaði mig þó ekki á því hví þau voru að bjóða okkur í mat. Hélt þetta væru mistök en sá svo í minnisbók Loga, "Bjóða Sollu og Söru í mat" , svo vafar mínir um ágæti þessa boðs hurfu líkt og dögg fyrir sólu. Logi var í teinóttum jakkafötum enda er toppurinn að vera í teinóttu hef ég heyrt. Áttu þau skötuhjú þrjú börn og var eitt þeirra nýfætt. Tók ég strax ástfóstri við þetta barn og fékk að halda á því meðan hinir fengu sér kaffi og með því inni í stofu. Mér til mikillar furðu tók barnið svo að skríða um mig alla þegar hinir voru horfnir og var ég fljót að týna því. Leitaði og leitaði svo að barninu í öllum skúmaskotum og þegar ég sá glitta í teinóttu jakkafötin hans Loga þokast nær og nær í átt að mér hélt ég að mér allri væri lokið en í þann mund sem Logi birtist mér rétti einhver ókunnug hönd mér barnið. Hjúkk! Já, allt er gott sem endar vel.