Þegar ég verð stór...
Hve oft hefur þessi setning verið notuð í veröldinni? Og hve oft stenst það sem kemur á eftir í setningunni í raunveruleikanum þegar maður verður svo stór? Ekki oft held ég (skrifað með biturleika og armæðu í rödd)
Eitt veit ég að mín setning endaði eitthvað á þá leið: ...ætla ég að vera söng- og leikkona. Ég er nú ekki að sjá það gerast. Held ég stækki ekki meira í bráð og hvað er ég, 22 ára verkfræðinemi sem hefur ekki áhuga á námi sínu og er að þessu til að “ljúka því af” og “ná sér í gráðu”. Sorglegt kannski en ekki græt ég mig í svefn á hverri nóttu (bara aðra hverja nótt).
Lífið er ekkert nema samansafn af ákvarðanatökum og þú endar þar sem þínar ákvarðanir bera þig. Vildi bara að ég tæki ekki í sífellu þessar röngu ákvarðanir. Langar ekkert að vera vélaverkfræðingur (enda mæti ég aldrei í skólann og þegar ég mæti sofna ég næstum úr leiðindum). En hvað langar mig að verða? Söng/Leikkona. Allavega ekki leikkona. Helst af öllu vil ég vera rithöfundur og halda áfram að læra söng mér til gamans og afþreyingar. Og hvað stoppar mig. Nú þessi helvítis verkfræði sem ég virðist föst í. Svo hef ég ekki endilega það sem þarf til að vera góður rithöfundur, Hvað ætti ég að skrifa? Harry Potter snýr aftur! Held nú ekki. Málið er að maður þarf bara að hætta að velta sér upp úr því hvað maður vill gera úr lífi sínu og gera bara eitthvað úr því. Eins og þeir gáfuðu segja (og biðst ég fyrirfram afsökunar á enskuslettunum): “Life Is What Happens To You When You Are Busy Making Plans”. Svo ég þarf bara að hætta þessu væli, hætta í verkfræðinni (ekki að fara að gerast) og byrja í íslensku, skrifa eina snilldar bók og syngja ballöður inná plötu með Jóni Ólafssyni, Þá er líf mitt komið í þær skorður sem ég vil hafa það í. Segi svona. Þetta mun aldrei gerast en það er alltaf gaman að taka smá bull hér á alnetinu.