miðvikudagur, mars 30, 2005

Svo bregðast krosstré sem önnur tré

Svona hljóðaði reyndar ekki málshátturinn í páskaegginu mínu þetta sinnið en hann á betur við en sá sem mér öðlaðist. Læriplanið mitt er gjörsamlega búið að bregðast í þessu fríi mínu hér á Íslandi því er búin að djamma og vera í þynnku mestmegnis svo lítill tími til að einbeita sér. Byrjaði þó af krafti í dag svo aldrei að vita nema nái að klára planið fyrir sunnudaginn því þá er það Danmörk á ný, hvar skólinn tekur allan minn tíma og ferðir í búðina. Já, það er erfitt að vera ég, andvarp. En nóg um það. Páskafríið er ágætt til bíóferða og sjónvarpsgláps og hef ég stundað hvoru tveggja af miklu kappi. Sá til að mynda "Million Dollar Baby" í gær. Bjóst ekki við miklu því fannst "Mystic River" með eindæmum leiðinleg mynd (kannski af því að ég fattaði eftir 10 mín hver drap dóttur Sean Penn (þ.e. gaursins sem hann lék (og lék frekar vel verð ég að segja))) en það er bara mín skoðun. En Hr. Eastwood er snillingur mikill og skín það í gegn í M$B. Áhrifamikil og góð mynd uppfull af hnyttnum samtölum (ég elska hnyttin samtöl) og gæti ég skemmt hana fyrir öllum sem hafa ekki séð hana með einni setningu en ég er eigi illskan uppmáluð svo enda þessa færslu núna.

fimmtudagur, mars 10, 2005

Felmtri slegin

Þori ekki að fara að sofa. Er hræddari en elgur. Við Gígja vorum á svo ógeðslegri mynd í bíó. Saw. Sá reyndar ekki mikið því sökkti mér niður í stóra mjúka sætið og hélt höndum yfir augum nær alla myndina. En er samt hrædd. Er svo búin að lesa um hana á imdb síðan ég kom heim sem bætir ekki stöðu mína. Hrollur. Hví lifi ég mig svona mikið inn í myndir? Já mér er spurn. En það þýðir ekki að væla yfir þessu. Fín mynd alveg svo sem (en ekki falleg setning þetta (hvað um það(ekki geta allir ritað fagrar setningar(sérstaklega ekki þeir sem eru skjálfandi hræddir að býsnast við að blogga)))). Held ég downlódi einum þætti af Scrubs eða svo fyrir svefninn til að fá smá gleði í blóðið mitt (eða hvert sem gleðin fer).