Af skiladæmum og sushi áti
Fríið mitt í Danmörku er á enda runnið (og meira en það) , skólinn byrjaður með öllum sínum frábæru skiladæmum og hausinn minn við það að springa daginn út og inn því á erfitt með að skilja hvernig maður finnur yfirfærslufall, setur upp ársreikninga fyrirtækja og svo frv. en með tímanum mun ég kannski sjá ljósið og skilja allt voða vel. Held allavega í vonina. En það var stuð í Danmörku. Gisti hjá Sollu og Gígju á víxl, verslaði alveg helling (missti mig í Fona og keypti 11 geisladiska (en það er seinni tíma Visa vandamál)), lá í sólbaði því veðrið var jú gott og mmmm borðaði Sushi í fyrsta sinn á Sticks and Sushi. Svo var ég líka ofsótt af Unicheff fólkinu, fór á ótrúlega góða myndi í bíó, Crash. Vissi ekkert um hvað hún var (venjulega er ég búin að lesa allt um allar myndir á imdb og horfa á trailerana villt og galið en nei ekki í þessu tilfelli (sem er gott)). En alla vega þið sem eruð að lesa þetta verðið að sjá þessa mynd. Alveg besta mynd þessa árs að mínu mati fyrir utan kannski Sin City en þær eru svo ólíkar að ef ég væri svona gella sem flokkaði allt þá myndi ég segja að Sin City væri besta hasar/mynd-byggð-á-teiknimyndasögu - kvikmynd en Crash besta dramatíska mynd byggð á frumskrifuðu handriti sem ég hef séð á þessu ári. Eða eitthvað. Ég er byrjuð að bulla eins og venjulega. Crash fær allavega 8,6 á imdb sem er alveg hellingur miðað við það að besta mynd allra tíma (skv. imdb) er Godfather (sem ég hef til "gamans" má geta ekki séð) með einkunnina 9,0 já það er aldeilis. Nóg um kvikmyndir. Ég er farin að læra enda ekki annað hægt á þessum tímum skiladæma. Myndin sem fylgir með þessum pósti er af Sollu, Gígju og mér að knúsa Jean Claude Van Damme plakat sem hangir á ganginum hennar Gígju. Það er mér dulið hví við erum að þessu en þessa mynd fann ég á myndasíðu Óttars og vildi deila henni með ykkur. Síðan ef ykkur langar til að vita hvað ég er að hlusta á þessa dagana þá eru það aðallega tvö lög. "Heard' Em Say" af nýja disknum hans Kanye West sem Adam Levine úr Maroon 5 syngur með honum eins og engill og er hitt lagið "Búgalú" með Stuðmönnum. Helskemmtilegt lag.
<< Home