sunnudagur, maí 15, 2005

Herbergisfélaginn frá Helvíti

Ég held það megi með sanni segja að mér hafi áskotnast skrýtnasti sambýlingur sem um getur er flutti hingað til Danmerkur. Daginn sem ég flutti inn ákvað hún að sýna mér "gæludýrið" sitt (þess má til gamans geta að eign gæludýra er bönnuð á kollegi þessu), leiddi (ekki þó hönd í hönd) hún okkur Gígju inn í herbergið sitt hvar stórt búr tók á móti okkur. "Ábyggilega hamstur" hugsaði ég með mér en er svo augum litið á þennan líka stóra hala og er þá ljóst að um rottu er að ræða. Við Gígja segjum, "Ahhhhh, en sætt" í kór en "Crazy lady" hljómar samtímis í höfðinu. Góð fyrstu kynni það. Síðan þá hafa þetta ekki verið annað en skringilegheit ofaná skringilegheit en þó er ég alltaf jafn hissa á hverju því sem hún kann að taka upp á hverju sinni (læri greinilega ekki af reynslunni). Og fyrir nokkrum dögum náði þetta allt saman hápunkti. Sambýliskonan fjárfesti í nýrri rottu, ungri og kvenkyns. Ekki nóg með það heldur var eldri rottan stóra og feita ekki lengi að hoppa upp á hana og fylla hana af rottubörnum sem skutust út 23 dögum síðar eða svo. Já, aumingja litla rottan ól 11 ógeðslega rottuunga svo nú erum við 15 sem búum í þessari 36 fermetra íbúð okkar (þ.e. ef kallinn hennar er ekki í heimsókn frá Spáni (sem hún by the way kynntist á internetinu (undarlegheitin ná engri átt þegar þessi stúlka er annars vegar)).