miðvikudagur, desember 15, 2004

Scrubs og skólabækur

Ég er búin að læra svo mikið að held að hausinn springi bráðum.
En þessi leiðinlegasta prófatörn af öllum prófatörnum (segi þetta alltaf) er brátt á enda komin. Og þá tekur ekkert nema eintóm hamingja við. Ég fer í 6 vikna frí og get loksins farið í bað. Ekki það að ég þrífi mig ekki hér í Danmörku heldur eru ekkert nema asnalegar sturtur hér með engum sturtubotni og undirrituð vill geta legið endrum og sinnum í baði. Hnuss.

Það eina sem hefur haldið mér á lífi í þessum prófalestri(ásamt Kanye West sem by the way gerir ekkert annað en dissa fólk sem nær sér í háskólagráðu) eru samt sjónvarpsþættirnir Scrubs með hinum stórskemmtilega Zach Braff í fararbroddi. Niðurhalaði fyrstu þrem seríunum fyrir stuttu og hef því legið í þessu í pásunum mínum. Já, alveg stórskemmtilegar pásur. Í alla staði vel skrifaðir og leiknir þættir sem hafa miklu meira innihald en maður heldur í fyrstu.